Kólussubréfið
Kafla 2
Ég vil að þér vitið, hversu hörð er barátta mín vegna yðar og þeirra í Laódíkeu og allra þeirra, sem ekki hafa séð mig sjálfan.
2 Mig langar, að þeir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist gjörvalla auðlegð þeirrar sannfæringar og skilnings, sem veitir þekkinguna á leyndardómi Guðs, Kristi.
3 En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.
4 Þetta segi ég til þess að enginn tæli yður með áróðurstali,
5 því að ég er hjá yður í andanum, þótt ég sé líkamlega fjarlægur, og ég horfi með fögnuði á góða skipan hjá yður og festu yðar í trúnni á Krist.
6 Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum.
7 Verið rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni, eins og yður hefur verið kennt, og auðugir að þakklátsemi.
8 Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.
9 Því að í honum býr öll fylling guðdómsins líkamlega.
10 Og í honum, sem er höfuð hvers konar tignar og valds, hafið þér öðlast hlutdeild í þessari fyllingu.
11 Í honum eruð þér einnig umskornir þeirri umskurn, sem ekki er með höndum gjörð, heldur með umskurn Krists, við að afklæðast hinum synduga líkama,
12 þegar þér voruð greftraðir með Kristi í skírninni. Í skírninni voruð þér einnig með honum uppvaktir fyrir trúna á mátt Guðs, er vakti hann upp frá dauðum.
13 Þér voruð dauðir sökum afbrota yðar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði yður ásamt honum, þegar hann fyrirgaf oss öll afbrotin.
14 Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn.
15 Hann fletti vopnum tignirnar og völdin, leiddi þau opinberlega fram til háðungar og hrósaði sigri yfir þeim í Kristi.
16 Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga.
17 Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn er Krists.
18 Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í hyggju holds síns
19 og halda sér ekki við hann, sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og samantengir taugum og böndum, svo að hann þróast guðlegum þroska.
20 Ef þér eruð dánir með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þér yður þá eins og þér lifðuð í heiminum og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi:
21 "Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á"? -
22 Allt þetta er þó ætlað til að eyðast við notkunina! - mannaboðorð og mannalærdómar!
23 Þetta hefur að sönnu orð á sér um speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann, en hefur ekkert gildi, heldur er til þess eins að fullnægja holdinu.