Postulasagan
Kafla 9
En Sál blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins. Gekk hann til æðsta prestsins
2 og beiddist bréfa af honum til samkundanna í Damaskus, að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá, er hann kynni að finna og væru þessa vegar, hvort heldur karla eða konur.
3 En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus, leiftraði skyndilega um hann ljós af himni.
4 Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: "Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?"
5 En hann sagði: "Hver ert þú, herra?" Þá var svarað: "Ég er Jesús, sem þú ofsækir.
6 En statt upp og gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra."
7 Förunautar hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu raustina, en sáu engan.
8 Sál reis á fætur, en þegar hann lauk upp augunum, sá hann ekkert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Damaskus.
9 Þrjá daga var hann sjónlaus og át hvorki né drakk.
10 Í Damaskus var lærisveinn nokkur, sem hét Ananías. Við hann sagði Drottinn í sýn: "Ananías." Hann svaraði: "Hér er ég, Drottinn."
11 Drottinn sagði við hann: "Far þegar í stræti það, sem kallað er Hið beina, og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja.
12 Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni, koma inn og leggja hendur yfir sig, til þess að hann fái aftur sjón."
13 Ananías svaraði: "Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gjört þínum heilögu í Jerúsalem.
14 Og hér fer hann með vald frá æðstu prestunum að færa í bönd alla þá, sem ákalla nafn þitt."
15 Drottinn sagði við hann: "Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels,
16 og ég mun sýna honum, hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns."
17 Þá fór Ananías af stað, gekk inn í húsið og lagði hendur yfir hann og mælti: "Sál, bróðir, Drottinn hefur sent mig, Jesús, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda."
18 Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina og lét þegar skírast.
19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus
20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.
21 Allir þeir, sem heyrðu það, undruðust stórum og sögðu: "Er þetta ekki maðurinn, sem í Jerúsalem hugðist eyða þeim, er ákölluðu þetta nafn? Kom hann ekki hingað til að fara með þá í böndum til æðstu prestanna?"
22 En Sál efldist æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.
23 Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi.
24 En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans.
25 En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu.
26 Þá er hann kom til Jerúsalem, reyndi hann að samlaga sig lærisveinunum, en þeir hræddust hann allir og trúðu ekki, að hann væri lærisveinn.
27 En Barnabas tók hann að sér, fór með hann til postulanna og skýrði þeim frá, hvernig hann hefði séð Drottin á veginum, hvað hann hefði sagt við hann og hversu einarðlega hann hefði talað í Jesú nafni í Damaskus.
28 Dvaldist hann nú með þeim í Jerúsalem, gekk þar út og inn og talaði einarðlega í nafni Drottins.
29 Hann talaði og háði kappræður við grískumælandi Gyðinga, en þeir leituðust við að ráða hann af dögum.
30 Þegar bræðurnir urðu þessa vísir, fóru þeir með hann til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus.
31 Nú hafði kirkjan frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu. Hún byggðist upp og gekk fram í ótta Drottins og óx við styrkingu heilags anda.
32 Svo bar við, er Pétur var að ferðast um og vitja allra, að hann kom og til hinna heilögu, sem áttu heima í Lýddu.
33 Þar fann hann mann nokkurn, Eneas að nafni, er í átta ár hafði legið rúmfastur. Hann var lami.
34 Pétur sagði við hann: "Eneas, Jesús Kristur læknar þig, statt upp og bú um þig." Jafnskjótt stóð hann upp.
35 Allir þeir, sem áttu heima í Lýddu og Saron, sáu hann, og þeir sneru sér til Drottins.
36 Í Joppe var lærisveinn, kona að nafni Tabíþa, á grísku Dorkas. Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða.
37 En á þeim dögum tók hún sótt og andaðist. Var hún lauguð og lögð í loftstofu.
38 Nú er Lýdda í grennd við Joppe, og höfðu lærisveinarnir heyrt, að Pétur væri þar. Sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: "Kom án tafar til vor."
39 Pétur brá við og fór með þeim. Þegar þangað kom, fóru þeir með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim.
40 En Pétur lét alla fara út, féll á kné og baðst fyrir. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: "Tabíþa, rís upp." En hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp.
41 Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi.
42 Þetta varð hljóðbært um alla Joppe, og margir tóku trú á Drottin.
43 Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.