Hósea

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14


Kafla 1

Orð Drottins, sem kom til Hósea Beerísonar á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga, og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs.
2 Þá er Drottinn hóf að tala við Hósea, sagði hann við Hósea: "Far og tak þér hórkonu og eignast hórbörn, því að landið drýgir hór og hefir snúist frá Drottni."
3 Þá fór hann og gekk að eiga Gómer Diblaímsdóttur. Hún varð þunguð og fæddi honum son.
4 Og Drottinn sagði við hann: "Lát hann heita Jesreel, því að innan skamms vitja ég blóðskuldar Jesreels á ætt Jehú og gjöri enda á konungdómi Ísraels húss.
5 Á þeim degi sundurbrýt ég boga Ísraels á Jesreel-völlum."
6 Og hún varð aftur þunguð og ól dóttur. Þá sagði Drottinn við Hósea: "Lát þú hana heita Náðvana, því að ég mun eigi framar auðsýna náð Ísraels húsi, svo að ég fyrirgefi þeim.
7 En ég mun auðsýna náð Júda húsi og hjálpa þeim fyrir Drottin, Guð þeirra, en ég mun eigi hjálpa þeim með boga, sverði, bardögum, stríðshestum né riddurum."
8 Og er hún hafði vanið Náðvana af brjósti, varð hún enn þunguð og ól son.
9 Þá sagði Drottinn: "Lát hann heita Ekki-minn-lýður, því að þér eruð ekki minn lýður, og ég er ekki yðar Guð."
10 Tala Ísraelsmanna skal verða sem sandur á sjávarströnd, sem ekki verður mældur og ekki talinn. Og í stað þess, að sagt var við þá: "Þér eruð ekki minn lýður!" skal við þá sagt verða: "Synir hins lifanda Guðs!"
11 Júdamenn og Ísraelsmenn skulu safnast saman og velja sér einn yfirmann og hefja ferð sína heim úr landinu, því að mikill mun Jesreeldagur verða.