Esekíel
Kafla 20
Á sjöunda árinu, tíunda dag hins fimmta mánaðar, komu nokkrir af öldungum Ísraels til þess að ganga til frétta við Drottin, og settust niður frammi fyrir mér.
2 Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: "Mannsson, tala þú til öldunga Ísraels og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:
3 Þér eruð komnir til þess að ganga til frétta við mig? Svo sannarlega sem ég lifi vil ég eigi láta yður ganga til frétta við mig, - segir Drottinn Guð.
4 En viljir þú dæma þá, viljir þú dæma, mannsson, þá leið þeim fyrir sjónir svívirðingar feðra þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:
5 Þegar ég útvaldi Ísrael, vann ég niðjum Jakobs húss eið og gjörði mig þeim kunnan á Egyptalandi. Þá vann ég þeim eið og sagði: Ég er Drottinn, Guð yðar!
6 Þann dag vann ég þeim eið að því að leiða þá burt af Egyptalandi til þess lands, er ég hafði kannað fyrir þá, er flyti í mjólk og hunangi, - það er prýði meðal landanna.
7 Og ég sagði við þá: Sérhver yðar varpi burt þeim viðurstyggðum, er þér hafið fyrir augum, og saurgið yður ekki á skurðgoðum Egyptalands. Ég er Drottinn, Guð yðar.
8 En þeir voru mér mótsnúnir og vildu eigi hlýða mér. Þeir vörpuðu eigi burt viðurstyggðum þeim, er þeir höfðu fyrir augum, og þeir yfirgáfu eigi skurðgoð Egyptalands. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í Egyptalandi.
9 En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er þeir bjuggu meðal, því að í augsýn þeirra hafði ég gjört mig þeim kunnan, til þess að flytja þá burt af Egyptalandi.
10 Og ég flutti þá burt af Egyptalandi og leiddi þá inn í eyðimörkina.
11 Og ég gaf þeim setningar mínar og kunngjörði þeim lög mín, þau er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa.
12 Ég gaf þeim og hvíldardaga mína, að þeir væru sambandstákn milli mín og þeirra, til þess að menn skyldu viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá, sem helgar þá.
13 En Ísraelsmenn voru mér mótsnúnir í eyðimörkinni. Þeir breyttu eigi eftir setningum mínum og höfnuðu lögum mínum, þeim er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa, og hvíldardaga mína vanhelguðu þeir stórum. Þá hugði ég að úthella reiði yfir þá í eyðimörkinni til þess að gjöreyða þeim.
14 En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á að ég flutti þá burt.
15 Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi ekki leiða þá inn í landið, sem ég hafði gefið þeim og flýtur í mjólk og hunangi, - það er prýði meðal landanna -,
16 af því að þeir höfnuðu lögum mínum og breyttu ekki eftir boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína, því að hjarta þeirra elti skurðgoð þeirra.
17 En ég kenndi í brjósti um þá meir en svo að ég vildi tortíma þeim, og gjörði því ekki út af við þá í eyðimörkinni.
18 Og ég sagði við sonu þeirra í eyðimörkinni: ,Breytið ekki eftir siðvenjum feðra yðar og haldið eigi lög þeirra og saurgið yður ekki á skurðgoðum þeirra.
19 Ég er Drottinn, Guð yðar, lifið eftir boðorðum mínum og haldið lög mín og breytið eftir þeim.
20 Og haldið helga hvíldardaga mína, og séu þeir sambandstákn milli mín og yðar, til þess að menn viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð yðar.'
21 En synirnir voru mér mótsnúnir: Þeir lifðu ekki eftir boðorðum mínum og héldu ekki lög mín, svo að þeir breyttu eftir þeim, sem maðurinn þó á að halda, til þess að hann megi lifa; hvíldardaga mína vanhelguðu þeir. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í eyðimörkinni.
22 En ég dró höndina aftur að mér og gjörði það ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á, að ég flutti þá burt.
23 Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi tvístra þeim meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin,
24 af því að þeir héldu ekki lög mín og höfnuðu boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína og höfðu ekki augun af skurðgoðum feðra sinna.
25 Ég gaf þeim þá og boðorð, sem ekki voru holl, og lög, er þeim eigi voru til lífs lagin.
26 Ég lét þá saurga sig á fórnargjöfum sínum, á því að brenna í eldi alla frumburði, til þess að þeim skyldi ofbjóða, svo að þeir yrðu að kannast við, að ég er Drottinn.
27 Tala þú þess vegna til Ísraelsmanna, mannsson, og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Enn fremur hafa feður yðar smánað mig með þessu, að þeir rufu trúnað við mig.
28 Þegar ég hafði flutt þá inn í landið, sem ég hafði heitið þeim með eiði að gefa þeim, og þeir komu einhvers staðar auga á háa hæð og þéttlaufgað tré, þá slátruðu þeir þar fórnum sínum og báru þar fram hinar andstyggilegu gjafir sínar og létu þar þægilegan ilm sinn upp stíga og dreyptu þar dreypifórnum sínum.
29 Þá sagði ég við þá: ,Hvaða blóthæð er þetta, sem þér farið upp á?' Fyrir því er hún kölluð ,hæð' allt til þessa dags.
30 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Viljið þér saurga yður á sama hátt og feður yðar og drýgja hór með viðurstyggðum þeirra?
31 Já, með því að bera fram fórnargjafir yðar, með því að láta sonu yðar ganga gegnum eld, saurgið þér yður á öllum skurðgoðum yðar allt til þessa dags, og ég ætti að láta yður ganga til frétta við mig, þér Ísraelsmenn? Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, vil ég ekki láta yður ganga til frétta við mig.
32 Ekki skal það heldur verða, sem yður hefir til hugar komið. Þér hugsið: ,Vér viljum vera sem aðrar þjóðir, sem kynslóðir heiðnu landanna, og tilbiðja stokka og steina.'
33 Svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð - skal ég ríkja yfir yður með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift.
34 Og ég mun flytja yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift,
35 og leiða yður inn í eyðimörkina milli þjóðanna og ganga þar í dóm við yður augliti til auglitis.
36 Eins og ég gekk í dóm við feður yðar í Egyptalands eyðimörk, svo mun ég og ganga í dóm við yður, - segir Drottinn Guð.
37 Ég mun láta yður renna fram hjá mér undir stafnum og láta yður gangast undir skyldukvöð sáttmálans.
38 Og ég skil þá frá yður, er gjörðust mér mótsnúnir og rufu trúnað við mig. Ég vil flytja þá burt úr því landi, þar sem þeir dvöldust sem útlendingar, en inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, svo að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.
39 En þér, Ísraelsmenn, - svo segir Drottinn Guð: Fari hver yðar og þjóni skurðgoðum sínum. En eftir þetta skuluð þér vissulega hlýða á mig og eigi framar vanhelga mitt heilaga nafn með fórnargjöfum yðar og skurðgoðum.
40 Því að á mínu heilaga fjalli, á fjallhnjúki Ísraels, segir Drottinn Guð, munu allir Ísraelsmenn, eins og þeir eru margir til, þjóna mér. Þar mun ég taka þeim náðarsamlega, og þar mun ég girnast fórnargjafir yðar og frumgróðafórnir ásamt öllu, sem þér helgið.
41 Ég mun taka yður náðarsamlega sem þægilegum ilm, þegar ég flyt yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, og þá skal ég sýna mig heilagan á yður í augsýn þjóðanna.
42 Og þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég leiði yður inn í Ísraelsland, inn í landið, sem ég sór að gefa feðrum yðar.
43 Þar munuð þér þá minnast breytni yðar og allra verka yðar, er þér saurguðuð yður á, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum allra þeirra illverka, er þér hafið framið.
44 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég fer svo með yður vegna nafns míns, en fer ekki með yður eftir yðar vondu breytni og yðar glæpsamlegu verkum, Ísraelsmenn, - segir Drottinn Guð."
45 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:
46 "Mannsson, horf þú í suðurátt og lát orð þín streyma mót hádegisstað og spá móti skóginum í Suðurlandinu,
47 og seg við skóginn í Suðurlandinu: Heyr orð Drottins! Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég kveiki eld í þér, sem eyða skal hverju grænu tré og hverjum þurrum viði, sem í þér er. Eldsloginn skal ekki slokkna, og öll andlit skulu sviðna af honum frá suðri til norðurs.
48 Og allir menn skulu sjá, að ég, Drottinn, hefi kveikt hann, hann skal ekki slokkna."
49 Þá sagði ég: "Æ, Drottinn Guð! Þeir segja um mig: ,Talar hann ekki ávallt í ráðgátum?'"