Prédikarinn
Kafla 6
Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, og það liggur þungt á mönnunum:
2 Þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi, auðæfi og heiður, svo að hann skortir ekkert af því er hann girnist, en Guð gjörir hann ekki færan um að njóta þess, heldur nýtur annar maður þess - það er hégómi og vond þjáning.
3 Þótt einhver eignaðist hundrað börn og lifði mörg ár, og ævidagar hans yrðu margir, en sál hans mettaðist ekki af gæðum og hann fengi heldur enga greftrun, þá segi ég: Ótímaburðurinn er sælli en hann.
4 Því að hann er kominn í hégóma og fer burt í myrkur, og nafn hans er myrkri hulið.
5 Hann hefir ekki heldur séð sólina né þekkt hana, hann hefir meiri ró en hinn.
6 Og þótt hann lifi tvenn þúsund ár, en njóti einskis fagnaðar, fer ekki allt sömu leiðina?
7 Allt strit mannsins er fyrir munn hans, og þó seðst girndin aldrei.
8 Því að hvaða yfirburði hefir spekingurinn fram yfir heimskingjann? hvaða yfirburði hinn snauði, er kann að ganga frammi fyrir þeim sem lifa?
9 Betri er sjón augnanna en reik girndarinnar. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.
10 Það sem við ber, hefir fyrir löngu hlotið nafn sitt, og það er ákveðið, hvað menn eiga að verða, og maðurinn getur ekki deilt við þann sem honum er máttkari.
11 Og þótt til séu mörg orð, sem auka hégómann - hvað er maðurinn að bættari?
12 Því að hver veit, hvað gott er fyrir manninn í lífinu, alla daga hans fánýta lífs, er hann lifir sem skuggi? Því að hver segir manninum, hvað bera muni við eftir hans dag undir sólinni?