Fyrri konungabók

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22


Kafla 16

En orð Drottins kom til Jehú Hananísonar gegn Basa, svolátandi:
2 "Sakir þess að ég hefi hafið þig úr duftinu og gjört þig höfðingja yfir lýð mínum Ísrael, en þú fetar í fótspor Jeróbóams og kemur lýð mínum Ísrael til að syndga, svo að þeir egna mig til reiði með syndum sínum,
3 þá mun ég sópa burt Basa og ætt hans, og fara með ætt þína eins og ætt Jeróbóams Nebatssonar.
4 Hvern þann, er deyr af ætt Basa innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, er deyr af henni úti á víðavangi, munu fuglar himins eta."
5 Það sem meira er að segja um Basa og það er hann gjörði og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
6 Og Basa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Tirsa, og Ela sonur hans tók ríki eftir hann.
7 En fyrir munn Jehú spámanns Hananísonar kom dómsorð Drottins yfir Basa og ætt hans, bæði vegna alls þess illa, er hann hafði aðhafst í augsýn Drottins með því að egna hann til reiði með handaverkum sínum, svo að fyrir honum færi sem fyrir ætt Jeróbóams, og líka vegna þess, að hann hafði eytt henni.
8 Á tuttugasta og sjötta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Ela, sonur Basa, konungur yfir Ísrael og ríkti hann tvö ár í Tirsa.
9 En Simrí, þjónn hans, foringi fyrir helmingi vagnliðsins, hóf samsæri gegn honum. Og er Ela drakk sig drukkinn í Tirsa, í húsi Arsa, dróttseta í Tirsa,
10 þá kom þar Simrí og vann á honum og drap hann, á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann.
11 En er hann var konungur orðinn og sestur í hásæti, drap hann alla ættmenn Basa - lét hann engan karlmann eftir verða af konungsættinni - svo og vandamenn hans og vini.
12 Þannig gjöreyddi Simrí allri ætt Basa, og rættist svo orð Drottins, sem hann hafði talað gegn Basa fyrir munn Jehú spámanns,
13 sakir allra synda hans og synda Ela sonar hans, þeirra er þeir höfðu drýgt og komið Ísrael til að drýgja, að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.
14 Það sem meira er að segja um Ela og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
15 Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Simrí konungur og ríkti sjö daga í Tirsa. En liðið sat þá um Gibbeton, sem Filistar áttu.
16 Og er liðið, sem lá í herbúðunum, frétti að Simrí hefði hafið samsæri og drepið konung, þá tók allur Ísrael Omrí, hershöfðingja í Ísrael, til konungs þann dag þar í herbúðunum.
17 Þá hélt Omrí og allur Ísrael með honum frá Gibbeton og settist um Tirsa.
18 En er Simrí sá að borgin var unnin, gekk hann inn í vígi konungshallarinnar og lagði eld í konungshöllina yfir höfði sér og beið svo bana
19 sakir synda þeirra, er hann hafði drýgt með því að gjöra það sem illt var í augum Drottins, með því að feta í fótspor Jeróbóams og drýgja sömu syndirnar, sem hann hafði drýgt, með því að koma Ísrael til að syndga.
20 Það sem meira er að segja um Simrí og samsærið, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
21 Þá skiptist Ísraelslýður. Fylgdi annar hluti lýðsins Tibní Gínatssyni og vildi gjöra hann að konungi, en hinn hlutinn fylgdi Omrí.
22 En þeir, sem Omrí fylgdu, urðu hinum yfirsterkari, er fylgdu Tibní Gínatssyni. En er Tibní var dauður, varð Omrí konungur.
23 Á þrítugasta og fyrsta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Omrí konungur yfir Ísrael og ríkti tólf ár. Sex ár ríkti hann í Tirsa.
24 Hann keypti Samaríufjall af Semer fyrir tvær talentur silfurs, og reisti byggð á fjallinu og kenndi borgina, sem hann byggði, við Semer, er átt hafði fjallið, og nefndi Samaríu.
25 Omrí gjörði það sem illt var í augum Drottins og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum,
26 og fetaði að öllu leyti í fótspor Jeróbóams Nebatssonar og drýgði sömu syndirnar, sem hann hafði komið Ísrael til að drýgja, svo að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.
27 Það sem meira er að segja um Omrí og allt sem hann gjörði og hreystiverk hans, þau er hann vann, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
28 Og Omrí lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu. Og Akab sonur hans tók ríki eftir hann.
29 Akab, sonur Omrí, varð konungur yfir Ísrael á þrítugasta og áttunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael í Samaríu tuttugu og tvö ár.
30 Akab, sonur Omrí, gjörði það sem illt var í augum Drottins, og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum.
31 Og hann lét sér ekki nægja að drýgja sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, heldur gekk hann að eiga Jesebel, dóttur Etbaals Sídoningakonungs. Fór hann þá og þjónaði Baal og tilbað hann.
32 Og hann reisti Baal altari í musteri Baals, er hann hafði gjöra látið í Samaríu.
33 Akab lét og gjöra aséru. Og hann gjörði enn fleira til að egna Drottin, Guð Ísraels, til reiði, framar öllum Ísraelskonungum, sem á undan honum höfðu verið.
34 Á hans dögum reisti Híel frá Betel Jeríkó að nýju. Missti hann frumgetning sinn, Abíram, er hann lagði undirstöður hennar, og yngsta son sinn, Segúb, er hann reisti hlið hennar. Var það samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Jósúa Núnssonar.